Hugtök og orðanotkun

í Bjargráðakerfinu Björgu

Þýðing fagtexta af erlendu máli er vandasöm. Fagmál innan sálfræði – eins og önnur fagmál – byggir að stórum hluta á alþjóðlegum orðum sem hafa vel skilgreinda merkingu. Íslenskan á hins vegar langa hefð fyrir því að þýða eða búa til ný íðorð (orð sem tilheyrir ákveðnu sérsviði) í stað þess að nota erlend orð sem falla ekki að íslensku máli. Reynt er að fylgja þeirri hefð í þýðingu á Bjargráðakerfinu Björgu og viljum við hjá Bjargráðum leggja okkar að mörkum við þýðingu á helstu hugtökum er varða DAM meðferð.

Nokkur af helstu hugtökum Bjargráðakerfisins Bjargar:

Hugrænt álag (Cognitive overload)

Stundum gerist það í samskiptum að vitræn úrvinnsla þjónustunotanda verður ofhlaðin og viðkomandi fer meðvitað eða ómeðvitað að upplifa hugrænt álag (cognitive overload). Þegar vitræn úrvinnsla ofhleðst á þjónustunotandi erfitt með að hugsa skýrt og vinna úr upplýsingum. Stundum stuðlar bjargráðaþjálfinn að of miklu hugrænu álagi hjá þjónustunotanda án þess að ætla sér það. Með skyndigreiningu getur bjargráðaþjálfi lagt reglubundið mat á vitrænni úrvinnslu þjónustunotandi, hjálpað viðkomandi að vinna úr upplýsingum og hafa stjórn á aðstæðum.

Skyndigreining (Quick step assessment)

Skyndigreining er aðferð til að meta hugrænt álag hjá þjónustunotanda. Bjargráðaþjálfi gefur stöðugt gaum að vitsmunalegri getu þjónustunotanda og tilfinningaástandi til að fylgjast með breytingum á hugrænu álagi. Með skyndigreiningu heldur bjargráðaþjálfi jafnvægi í aðstæðum og aðlagar þjálfunina að þörfum þjónustunotanda.

Gildisvirðing (validation)

Gildisvirðing er þjálfunaraðferð sem byggir á samþykki og sátt. Í bjargráðaþjálfuninni gefa þjálfarnir stöðugt til kynna með gildisvirðingu að þeir viðurkenni og séu sáttir við þjónustunotandann. Við gildisvirðum aðra þegar við tjáum með viðhorfi okkar og athöfnum að viðkomandi hafi gildi og skipti okkur máli.

Umgjörð bjargráðaþjálfunar, A + B = C

Er í anda áhugahvetjandi samtals (MI), þjónandi leiðsagnar og byggir á virkri og gagnvirkri hlustun. A + B = C umgjörðin er einföld aðferð til að halda föstum ramma um tilfinningastjórn í samskiptum. Dálkur ”A” heldur utan um það sem samtalið byrjar á, að skýra aðstæður A (þjónustunotanda) . Á þessu stigi er áherslan á vitund og sátt. Dálkur ”B” stendur fyrir skilning bjargráðaþjálfans (B), þar sem breytingaaðferðir eru notaðar. Í dálki ”C” fer fram samvinna A og B þar sem aðferðir sem stuðla að aðlögun og breytingum eru notaðar.

Tilfinningamælir

Tilfinningamælirinn er mælitæki sem mælir stig viðbragða, tilfinninga, og skynjunar á skalanum frá 0 til 5. Við metum tilfinningastig okkar eftir því (1) hve einbeitt hugsun okkar er og (2) hversu góð færni okkar er til að eiga samskipti við annað fólk. Þegar við erum róleg og í hugarró getum við hugsað skýrt og átt gagnkvæm samskipti við annað fólk. En ef hugarástand okkar einkennist af óróa og við getum hvorki talað né hlustað á-réttri-braut, þá erum við í tilfinningalegu uppnámi.

1-2-3 Betri vitund (Wise mind)

Við notum Betri vitund (Wise Mind) með því að staldra við til að hugsa og finna það sem við „vitum“ að er besta ákvörðunin fyrir okkur. Með Betri vitund samþættum við sátta- og breytingaaðferðir. Við fylgjum Betri vitund þegar við höfum náð Skýrri mynd og Hugsun er á-réttri-braut, og í kjölfarið framkvæmum við Athafnir-á-réttri-braut sem hjálpa okkur að ná markmiðum okkar. Betri vitund er bjargráðakeðjan: 1-2-3 Betri vitund.